Höfundur: Diljá
Þekktur kanadískur gatari sem heitir Lynn Loheide setti nýverið inn Instagram-færslu um notkun eyrnapinna, og var það kveikjan að því að ég ákvað loksins að skrifa smá um eyrnapinna sem part af umhirðurútínu á götum.
HÉR er færslan hjá Lynn.
PS. Ég er að sjálfsögðu ekki að tala um fjölnota eyrnapinna 🤓
Gatarar virðast skiptast í tvær fylkingar þegar kemur að eyrnapinnum, ýmist mæla þeir með þeim eða mæla ALLS EKKI með þeim. Það sem hefur truflað mig við seinna sjónarmiðið er að oft er því haldið fram að eyrnapinnar séu algjört “no no” án þess að það fylgi með hvers vegna ekki eða hvað eigi að nota í staðinn.
Við á 220 mælum ekki með lausri bómull á göt þar sem hún er mjög laus í sér og getur flækst í gatinu. En ef eyrnapinnar eru nægilega stífir í sér þannig að bómullinn á þeim sé ekki að flækjast í götum og skilja eftir sig trefjar, þá er í raun engin ástæða til að nota þá ekki. “Oddhvassir” eyrnapinnar (e. pointy) geta verið mjög þægilegir í notkun, sjálf hef ég þó verið að vinna með venjulega lífræna eyrnapinna úr Krónunni sem hafa reynst mér vel.
Bómull er ekki hættuleg, hún er notuð af heilbrigðisstarfsfólki, í fatnað, bómullarskífur, eyrnapinna, dömubindi, grisjur og svo framvegis. Lífræn bómull er vissulega æskilegri en sú ólífræna ef út í það er farið. En mér finnst líklegt að á þeim tíma sem gatarar fóru fyrst að mæla gegn eyrnapinnum, að þá hafi þeir mögulega verið lélegri og lausari í sér.
Vissulega viljum við ekki vera harðhent með eyrnapinna, enda mikilvægur partur gróanda að forðast hnask. En eins og Lynn segir:
“Ef þú ert nægilega ábyrgur einstaklingur til að fá þér gat og sjá um umhirðuna á því, þá er þér treystandi til að nota eyrnapinna á réttan hátt”.