Höfundur: Diljá
Eitt af því sem er svo áhugavert við að vinna við að skreyta líkama fólks er hvað líkamar eru allir mismunandi - ekkert okkar er eins sem er það sem gerir tilveruna svo skemmtilega! En eins og það er fallegt að ekkert okkar sé eins, að þá þýðir það hjá okkur göturunum að stundum koma einstaklingar í gat sem þeir er ekki með anatómíuna í. Það að þurfa að neita fólki um gatið sem því langar í er klárlega ekki hápunktur starfsins; það er ekki góð tilfinning að bregðast væntingum viðskiptavina sinna og flestir gatarar hafa því einhvern tíma gert göt sem voru ólíkleg til að endast til að geðjast viðskiptavinum sínum. En við ætlum aðeins að fara yfir það hvers vegna göt henta ekki öllum!
**ATH. Við erum ekki að tala um göt sem ætti ekki að gera yfir höfuð af öryggisástæðum og áhættuþáttum, eins og snake eyes eða gat í augnlokið, heldur viðurkennd göt sem þó henta ekki hvaða anatómíu sem er.**
Göt eru ekki "one size fits all", og rétt eins og við gætum þurft að setja lengri pinna hér eða þykkari þar að þá er stundum bara ýmist ekki hægt, eða óæskilegt, að gata sumar anatómíur. Ástæðurnar fyrir því að tiltekið gat hentar eru mismunandi eftir líkamspörtum, en í meginatriðum þarf að vera pláss fyrir lokkinn (sem sagt, nægileg húð) og hann þarf að geta setið rétt á húðinni. Annars eiga lokkar til að vaxa auðveldlega út eða vera í meiri hættu að kippast út ef þeir flækjast í einhverju, sitja ekki rétt á húðinni, vera á of mikilli hreyfingu og/eða valda þrýstingi.
Ég veit að þetta getur verið mjög svekkjandi, bæði eftir að hafa unnið sem gatari í rúm fjögur ár og líka af eigin reynslu. Ég labbaði inn á götunarstofu þegar ég var unglingur og fékk mér industrial eftir að séð einhverja ógeðslega kúl stelpu á MySpace eða Pinterest með svoleiðis. Gatarinn sagði að ég væri ekki alveg með eyrað í það, en mig dauðlangaði að vera með eins gat og spurði hvort það væri ekki hægt að gera það samt, PLÍS?? Ég labbaði út með eitthvað sem var gjörólíkt því sem ég hafði séð fyrir mér, þetta var ekkert eins og á myndinni. Svo varð gróandinn algjört hell og ég endaði með að taka lokkinn úr eftir örfáa mánuði. Ég lærði þarna að ég var ekki með anatómíuna fyrir industrial, og ef út í það er farið þá er ég ekki með anatómíuna fyrir augabrúnagöt eða bridge og örugglega eitthvað fleira sem ég man ekki eftir í augnablikinu.
Og þetta er ekki óalgengt, ég hef sem dæmi oft vísað frá forward helix og industrial, og sérstaklega naflagötum. Naflinn getur verið of flatur fyrir naflalokk, of útstæður, maginn getur haft þannig lögun að naflalokkur muni falla inn í naflann og valdið þrýstingi og óþægindum, stundum er fólk með ör eftir aðgerð, enga naflabrún o.s.frv. Sumir gatarar gera naflagöt fyrir ofan naflann ef naflabrúnin er ekki til staðar. Þá er fólk komið með gat í magann, ekki naflann, og þau göt eru garanterað að fara að vaxa úr húðinni með tilheyrandi óþægindum og öramyndun. Það viljum við ekki gera, en það eru til myndir á netinu af slíkum götum mynduðum frá þannig sjónarhorni að þau líti frekar eðlilega út, og því villandi fyrir fólk og jafnvel særandi þegar við segjum þeim að við getum ekki gatað þeirra anatómíu, sem lítur eins út og naflinn á netinu sem er með naflagat.

Líklega mynd frá 2021-22. Finnst þetta svo gott dæmi um eyrnagat sem passar fullkomlega inn í anatómíu eyrans.
👉En svo það sé á hreinu: Það er ekkert að líkamanum þínum og þú ert ekki óeðlileg/t/ur.👈
Og svo við lítum á björtu hliðarnar!
Það er miklu flottara að vera með göt út frá sinni einstöku líkamsgerð heldur en að reyna að láta eitthvað gat ganga upp sem hentar manni ekki. Mér finnst fátt eins skemmtilegt og að fá að vinna með líkamsbyggingu fólks; eyrað er kannski ekki með lögunina fyrir industrial en það er með fullkomna lögun fyrir daith eða eitthvað annað kúl eyrnagat. Á myndinni hér fyrir neðan (sem er í glötuðum gæðum, afsakið mig) hafði stelpa komið og beðið um forward helix. Það var því miður ekki pláss fyrir þaðen hún var með geggjað pláss fyrir rook, þannig við gerðum tvö!
Það eru til ótal útfærslur af svokölluðum custom industrial þar sem lokkar eru sérsmíðaðir fyrir eyra á manneskju þegar hefðbundið industrial hentar ekki, einnig er vertical industrial mjög töff valmöguleiki sem gæti hentað.
Sumir naflar eru ekki ídeal fyrir þetta klassíska naflagat með steinum sitthvoru meginn, en fullkomnir fyrir “floating navel” þar sem það er steinn fyrir ofan en flatt bak inn í sjálfum naflanum.
Þetta eru bara örfá dæmi, en sama gildir um aðra líkamsparta. Við erum öll jafn mismunandi og við erum mörg, sem er sem áður segir það sem gerir lífið skemmtilegt 🧡