Höfundur: Diljá
Við fáum reglulega fyrirspurning og sjáum umræður á netinu um hið svokallaða mígrenisgat. Það eru gatarar þarna úti sem auglýsa mígrenisgatið og fullyrða um að daith sé að fara að laga mígrenið þitt. Við höfum líka séð auglýst á netinu að ákveðin göt lækki blóðþrýsting, lagi kvíða og fleira!
Þessir gatarar eru að notfæra sér neyð annarra til að græða peninga og ég fýla það ekki ✋🛑
Hér eru nokkir punktar til að hafa í huga:
- Það er engin vísindaleg tenging milli daith gats og mígrenis og telja Mígrenissamtök Bandaríkjana að áhrifin séu, ef eitthvað, skammvinn og megi rekja til placebo-áhrifa, sem er þegar ákveðnir hlutir (lyfleysur t.d.) virka af því að við trúum að það virki.
- Á vefsíðu samtakana kemur fram að nálastungusérfræðingurinn Dr. Will Foster frá Tennessee sé með kenningu að það sé þrýstingspunktur (e. pressure point) í eyranu sem leiði í meltingarfærin (það kemur ekki fram hvernig það síðan tengist mígreni). Hins vegar væri þetta mjög nákvæmur þrýstingspunktur sem ólíklegt er að maður myndi hitta á og jafnvel þó nálastungusérfræðingur stæði við hlið gatara og segði honum hvar hann ætti að stinga þá væri engin vissa fyrir því að þetta myndi virka - við sjáum ekki taugarnar og getum ekki staðsett mögulega þrýstipunkta.
- Ein kenning er að daith-götun fari í part af vagus tauginni sem leiðir frá heilanum og út í líkamann og að það að vera með sífelldan þrýsting frá lokk á þessu svæði blokki sársaukaviðtaka (e. pain receptor) til heilans. Þessi taug er samt ekkert sérstaklega tengd við daith-svæðið og það væri að auki engin leið fyrir gatara að sjá eða finna hvar hún væri.
Ég dæmi alls ekki fólk sem hefur fengið sér daith í von um að það lagi mígreni. Ég er heldur ekki að segja að daith *geti ekki* hjálpað þó það séu ekki konkret sannanir fyrir því, hvort sem það sé út af placebo áhrifum eða einhverju öðru. Við segjum viðskiptavinum okkar alltaf að það sé ekki sönnun á virkni daith gats og mígrenis, en ef fólki vilji prófa og í "versta" falli enda með flott gat, að þá bara go for it!
Það sem fólk þarf að vera meðvitað um er að gatarar eru ekki læknar, nálastungusérfræðingar eða vísindamenn, og eiga ekki að lofa einhverjum lækningum. Það er allt of algengt að sjá gatara tala um "mígrenisgatið" og græða á fólki með loforðum um kraftaverk. Gatarar eiga að vita betur en það, og gera betur en það.
Heimild:
American Migraine Foundation.
https://americanmigrainefoundation.org/resource-library/daith-piercings-101/
WebMD
https://www.webmd.com/migraines-headaches/daith-piercing-migraine-treatment