Höfundur: Diljá
Góðan og blessaðan 17. júní! Þetta er einn af þessum póstum þar sem hann var næstum því tilbúinn en svo ýtti ég á back takkann eða eitthvað og allt fór út. Þannig - taka tvö!
Í dag ætla ég að tala um hringi í nýjum/gróandi götum. Margir leitast eftir litlum og þunnum hringum, sérstaklega í helix og nasavæng. En því miður er það slæm hugmynd í ný og gróandi göt.
En eru hringir ALLTAF slæm hugmynd?
Eru aðstæður þar sem hringir eru æskilegir í nýjum og gróandi götum?
Skoðum þetta saman 💪
Gerðir af heilum hringum
-
Seamless - hringurinn togast til hliðana og aftur saman
Mynd frá Void Clothing. -
Segment - hringurinn er með stykki/bút (e. segment) sem þarf að taka úr og setja í til að loka honum.
Mynd frá WildCat.
-
Segment clicker / hinged segment - þarna er líka stykki/bútur en á hjörum sem opnast og lokast.
Mynd frá Invictus.
Gróandi og hringir
Þegar við fáum okkur gat, þá þarf líkaminn í raun í græða sig í kringum aðskotahlut, eins kreisí og það hljómar! Til þess að tryggja gatinu sem bestan gróanda þarf gatari að gera gatið rétt og með réttu skarti (bæði lögun og gæði), ásamt því að veita öruggar umhirðuleiðbeiningar.
Hvað lögunina varðar, þá er vandamálið með heila hringi þríþætt:
-
Á öllum þessum gerðum af hringum eru skil þar sem brúnirnar mætast. Skilin geta komist inn í gatið og valdið ertingu.
-
Að því undanskildu að stór og þykkur lokkur sé notaður, þá er "passlegur" hringur of lítill til að ráða við bólgumyndunina sem fylgir nýjum og gróandi götum. Þetta getur valdið miklum óþægindum og öramyndun eftir sífelldan þrýsting hringsins inn í húðina. Auk þess líklegra að lokkurinn vaxi hreinlega úr (e. migrates) húðinni.
-
Hringir snúast og þar með eykst hættan á að sýklar komist inn í gatið.
En hvað um septum og daith?
Kem ég hérna með heila ræðu um hvað hringir eru slæmir og set síðan hringi í septum og daith og fleira eins og enginn sé morgundagurinn!?
Hér eru gerðir hringja sem eru notaðir í daith og septum:
-
Ball closure - Hringur festur með kúlu í miðjunni
Mynd frá Invictus -
Skeifulokkur (circular barbell/horseshoe) - hringur með kúlu á sitthvorum endanum
Skeifulokkur. Mynd frá Invictus. -
Skraut clickerar eða seamless hringir - þessir eru í lagi EF skilin á hringnum geta ekki komist inn í gatið. Reyndar finnst mér erfitt að finna skraut clickera með ásættanlegum skilum fyrir ný göt, og hef því sjaldan notað þá í ný göt.
T.V. Þennan segment clicker settum við í gróið daith gat. Takið eftir skilunum á hringnum - þetta væri ekki sniðugur lokkur í nýtt gat þar sem skilin gætu auðveldlega komist inn í gatið. T.H. Raven frá Junipurr (seamless ring). Þarna eru skilin á lokknum alveg við skrautið þannig það er sénslaust að skilin færu inn í rásina. Þennan lokk er hægt að nota í nýtt gat.
En af hverju notum við þessar gerðir af hringum í þessi göt en ekki hin?
Sumir gatarar nota bogna barbell lokka í daith, en við gerum það ekki þar sem að það er meiri hreyfing á bognu barbell lokkunum á þessu svæði, auk þess að vogaraflið á til dæmis skeifulokkum (sem er okkar go to lokkur í daith) heldur honum meira á sínum stað og takmarkar hreyfingu þegar verið er að þrífa lokkinn frekar en bogni barbell lokkurinn.
Septum er gatað í gegnum slímhúðina sem liggur milliefra og neðra brjósksins í miðju nefinu. Þetta er þunn húð sem grær hratt og er því septum gat almennt mjög þægilegt í gróanda. Eins lengi og það eru ekki skil á hringnum (eða skil á skaut clickerum sem geta færst og farið inn í gatið) og hann er nægilega stór, þá er óþarfi að byrja með beinan eða boginn pinna í septum gati.
Skeifulokkar og ball closure hringir eru einnig notaðir í ýmis kynfæragöt.
Niðurstöður
Það er ekki í lagi að setja heila hringi og/eða litla og þunna hringi í ný göt. Gatari sem gerir slíkt er ýmist ekki með nægilega þekkingu eða er meira að pæla í peningunum þínum frekar en að gatið nái í alvörunni að gróa.
Ef þig langar í til dæmis conch eða helix með hring sem er:
- Nægilega stór að það sé pláss fyrir bólgumyndun
- Nægilega þykkur til að valda ekki “cheese wire effect" (sem er þegar lokkur er of þunnur að hann sker sig inn í húðina með tímanum)
- Ekki með skilum/brúnum sem geta farið inn í gatið
- Helst með ball closure hring (ég sé fyrir mér að þykkur skeifulokkur gæti fært sig þannig að of mikil þyngd sé á einum stað)
… að í þeim aðstæðum er hringur í fínu lagi.
Ég hef ekki gert göt með þykkum hringum sjálf (ennþá 💅) en er mjög opin fyrir því - holla at mí!