Götunarhugtök, enskuslettur og fleira!

Höfundur: Diljá

Mig langaði aðeins að fjalla um götunarhugtök, íslensk heiti og enskuslettur, sem gatari með áhuga á tungumálinu sem er samt endalaust slettandi á ensku!

Þið sjáið það hér í vefversluninni okkar, í umhirðuleiðbeiningum, nöfnum á götum og svo framvegis - af hverju erum við ekki að íslenska þetta allt saman? 

Dæmi:
Enska: Conch, curved barbell, industrial, 
Íslenska: Kuðungur, beygð stöng, iðnaðar-? hmm.. 

Vandamálið er oftast að það vantar orðin fyrir til dæmis öll mismunandi svæðin í eyranu í íslenskri tungu, eða þau eru það bilaðslega fáheyrð að fólk myndi ekki vita hvert það ætlaði ef þú tilkynntir því að þú hafir verið að fá þér gat í andbarðið. 

Um heyrn - HeyrðuMynd sem ég fékk lánaða frá heyrdu.is. Þarna myndum við tala um forward helix sem "barð". Ert þú með gat í barðinu? 👀

Svo eru líka sum orð sem við eigum auðveldara með að þýða en eru ekki jafn þjál, til dæmis clicker = smellulokkur og anatomía = líkamsgerð. Þar sem ég skrifa þetta átta ég mig líka á því að smellulokkur getur líka staðið fyrir klemmueyrnalokka sem fara ekki í gegnum neitt gat, þannig að það gæti líka valdið misskilningi! 

Mér líður líka eins og líkamsgerð sé einhvernvegin persónulegra orð heldur en anatómía, "þú ert því miður ekki ekki með líkamsgerðina fyrir industrial" hljómar í mínum eyrum eins og ég vilji ekki gata ákveðið fólk vegna líkamsgerðar?? Á meðan finnst mér anatómía vísa meira til *tiltekins* líkamsparts. 

Á ensku eru líkamsgöt oft kölluð eftir líkamspartinum sem það tilheyrir með piercing í viðhengi, til dæmis "daith piercing". Ég veit ekki hvort það sé jafneðlilegt hjá þeim að segja bara "ég er með daith" svona eins og við myndum gera - mögulega er það eins og ég við myndum segja "ég er með nafla" en þið sem eruð með betri tilfinningu fyrir enska málinu megið endilega fræða mig 😄

Einnig hafa ýmis göt hlotið tilbúin viðurnefni sem tengjast ekki heiti líkamspartsins og hafa fest sig mismikið í sessi, til dæmis eru innri kinnagöt/munnviksgöt oft kölluð "Dahlia" eða "Joker" piercings, tvö göt í neðri vör kölluð "snakebite", gat í varahaftið kallað "smiley" og margt, margt fleira. Svo koma stundum ný heiti til sögunnar, við höfum verið beðnar um snakebite í eyrað og var þá átt við tvö helix hlið við hlið. 

Gatarar hið ytra vilja margir fjarlægja sig þessum tilbúnu heitum og nota heiti líkamspartisins í staðinn. Er þetta til að koma í veg fyrir misskilning milli gatara og viðskiptavinar (þú t.d. biður um jestrum en meinar joker eða biður um medusa en vilt fá monroe, biður um eyrna snakebite og Diljá á 220 veit ekkert hvað þú ert að tala um 😂), gera götun faglegri og meira "inclusive" (jebb, man ekki íslenska orðið yfir þetta).. Gatarar erlendis eru líka margir hættir að nota orðið "dermal" og nota "surface anchor" í staðinn þar sem það heiti þykir meira lýsandi yfir fyrirbærið. Dermal þykir misvísandi þar sem dermal þýðir bara "húð" eins og skartið sé alveg undir húðinni, þegar raunin er að þetta er akkeri undir húðinni með sýnilegum skrúfgangi/skarti sem situr ofan á húðinni.

Á Íslandi er sjálfsagt mismunandi eftir stofum hvað götin eru kölluð. Við á 220 leitumst við að nota heitið eftir líkamspartinum, en notum oft enska heitið þar sem okkur annað hvort skortir íslenska heitið eða það er bara ekki nógu þjált eða þekkt orð. Sem dæmi notum við "vertical philtrum" í staðinn fyrir "jestrum" og "philtrum" í staðinn fyrir "medusa". Við notum hinsvegar ennþá "dermal" af því að fólk veit hvað það er, það myndu ekki allir fatta hvað það væri ef við færum að bjóða upp á "yfirborðs akkeri". Við bjóðum líka upp á "snakebite" því það er svo rótgróin tenging á að tvö göt sitthvoru megin á neðri vör séu "snakebite" og "vampire bites" af sömu ástæðu. Þetta getur samt alltaf breyst hjá okkur, enda mikilvægt fyrir okkur gatara að vera fróðleiksfús og sýna aðlögunarhæfni. 

Hvað finnst þér um þetta allt saman? 

 

Back to blog